Toyota á Íslandi kolefnisjafnar notkun allra nýrra Hybrid bíla
Allir nýir Toyota Hybrid bílar sem seldir eru eftir 1. janúar 2019 verða kolefnisjafnaðir út líftíma sinn. Verkefni er unnið í samstarfi við Kolvið sem hefur á undanförnum árum gefið bíleigendum kost á að kolefnisjafna notkun á bílum sínum. Þar með eru nettó umhverfisáhrif notkunar á Hybrid bílum engin.
Á heimasíðu Kolviðar er reiknivél sem reiknar kostnað við að kolefnisjafna notkun bíla. Rétt er að skoða þessa reiknivél til að átta sig á hvernig þetta virkar. Miðum við að bíllinn sé ekinn 15.000 km á ári og notum hæstu eyðslutölu sem gefin er upp fyrir viðkomandi bíl á mismunandi hraða.
Ef reiknivélin er notuð má sjá að t.d. Corolla Hybrid 1.8 eyðir 5,1 l á 100 km á mismunandi hraða. Samkvæmt reiknivél Kolviðar losar þessi akstur á einu ári 1,7 tonn af CO2 og til þess að kolefnisjafna aksturinn þarf að planta 17 trjám á ári sem binda munu CO2 yfir líftíma sinn. Kolviður sér um að planta trjánum og hirðir um þau í framtíðinni.